7 minute read

Með eldgos í bakgarðinum

Slökkviliðsstjórinn í Grindavík lýsir starfi viðbragðsaðila í gosinu á Reykjanesi

„Þetta byrjaði allt daginn eftir þorrablótið í Grindavík. Þá byrjaði landris og jarðskjálftar. Nokkrum vikum seinna sátum við hjónin heima með nokkum góðum vinum þegar ég fæ hringingu frá vini mínum honum Boga Adolfssyni formanni björgunarsveitarinnar Þorbjörns, þar sem við búum efst í bænum þá vissi hann hvert útsýnið væri frá okkar húsi en þá hafði hann fengið ábendingu frá íbúa um bjarma í áttina að Fagradalsfjalli og bað mig að staðfesta hvort ég sæi bjarma sem reyndist vera. Bjarma sem við héldum fyrst að væri ljósin í Vogunum. Svo áttuðum við okkur á því að það væri komið eldgos í bakgarðinum. Það er ekki oft sem maður getur horft á eldgos út um eldhúsgluggann.” Þetta segir Einar Sveinn Jónsson sem tók við starfi slökkviliðsstjóra í Grindavík 1. desember í fyrra.

Advertisement

Jarðskjálftarnir góður undirbúningur

Jarðskjálftahrinan sem var undanfari gossins í fyrra gerði það að verkum að allir viðbragðsaðilar á svæðinu voru vel undirbúnir. Það var búið að fara yfir og uppfæra viðbragðs- og rýmingaráætlanir hjá fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu en hins vegar hafði enginn gert ráð fyrir öllum þeim fjölda fólks sem vildi fara að gosstöðvunum. Það hafi ekki verið gerð nein áætlun hvað þetta varðaði og skapaði tölverð vandræði í upphafi sem tókst svo að koma böndum á. Einar segir að skjálftatíminn hafi verið heimafólkinu erfiður, sérstaklega fólki af erlendu bergi sem ekki þekkir til svona jarðhræringa. „Auðvitað verður fólk smeykt,“ segir Einar. Hann sjálfur er fjölskyldumaður með konu og fjögur börn sem voru róleg og yfirveguð á með á gosinu stóð. Hann segir að stórfjölskyldan hans á Dalvík hafi haft meiri áhyggjur af ástandinu en hans eigin kjarnafjölskylda í Grindavík.

Anað í óvissuna

„Á einni nóttu breyttist Grindavík úr litlu friðsælu sjávarþorpi í einn fjölmennasta ferðamannastað landsins. Það vildu allir sjá gosið sem sérfræðingar héldu að myndi standa stutt yfir. Það var gífurlegt álag á alla viðbragðsaðila fyrstu vikurnar. Það var myrkur, kalt og frost. Helst vildi fólk koma um og eftir miðnættið, því þá var gosið tilkomumest. Því miður varð töluvert af slysum enda ekki allir vanir að fara í fjallgöngur. Aðgengið að fjallinu var erfitt, sérstaklega í byrjun og það gat tekið okkur upp í klukkutíma að skrölta á bílnum upp á fjallið til þess að ná í þann slasaða. Flest slysin urðu á kvöldin og nóttunni. Þetta var

mikil áskorun og auðvitað þurftum við líka að passa eigið öryggi. Þarna var gasmengun og önnur hætta. En samstarfið við Björgunarsveitina Þorbjörn og lögregluna var algjörlega til fyrirmyndar. Þetta gekk eiginlega ótrúlega vel, enda þéttur hópur sem stóð að þessu verkefni, þvert á fagaðila.“ „Flest slysin urðu í brekkunum upp við gosstöðvarnar og þá þurftum við að fá aðstoð björgunarsveitarinnar til þess að komast upp torfærar slóðirnar. Mest var um ökklabrot þegar fólk var að fara niður. Tölverð áskorun var svo að flytja slasað fólk niður troðningana. Hver túr gat tekið upp í fjóra tíma þegar allt er tekið með, ferðin upp, flutningurinn niður og akstur á sjúkrahús í Keflavík eða Reykjavík. Svo var maður kannski nýkominn heim þegar nýtt útkall kom. Þetta lenti á þeim sem stóðu bakvaktina á hverjum tíma. Þetta reyndi tölvert á að vera upp á fjalli kannski fimm nætur af sjö og sinna svo sinni aðalvinnu á daginn. En í huganum er þetta afar krefjandi og skemmtilegur tími,” segir Einar. Einar segir það ótrúlegt hve margir voru illa búnir þegar þeir lögðu á fjallið. „Það var eins og sumir væru að fara út að skemmta sér á föstudagskvöldi og ákváðu að koma aðeins við á gosstöðvunum. Að kíkja á gosið á leið á barinn! Sumir voru í stutterma bolum og á inniskónum. Þarna komu ferðamenn sem voru á leiðinni út að borða, konur í pels og karlar í jakkafötum. Fólk var með kornabörn í pokum á bakinu í frostinu. Fólk sem vildi taka myndir af hestinum sínum við gosstöðvarnar og fólk sem vildi láta gefa sig saman við glóandi hraunjaðarinn.“ Að mati Einars efldi gosið samstarf viðbragðsaðila á svæðinu og þétti hópinn mikið, lögreglu, björgunarsveitir og slökkvilið. Hann segir samstarfið einstakt. Menn eru miklu yfirvegaðri í þessari nýju jarðaskjálftahrinu sem hefur staðið yfir nú í sumarbyrjun og menn mun rólegri yfir því sem kann að gerast. Það er búið að vinna grunnvinnuna. Einar segir að það séu ekki mörg sveitarfélög á landinu sem eru með uppfærða viðbragðs- og rýmingaráætlun árlega eins er í Grindavík og svæðinu í kring.

Einar Sveinn Jónsson

Sérfræðingurinn Gróa á Leiti

Slökkviliðsstjórinn segir alla í Grindavík orðna langþreytta á jarðskjálftum. En það sem angrar hann mest þessa dagana er óvandaður fréttaflutningur, þar sem svokallaðir sérfræðingar berja sér á brjóst með alls konar yfirlýsingum og spám um hvað geti gerst í næsta gosi. Hann tekur fram að þetta eigi ekki við um sérfræðinga Veðurstofunnar. Þeir vandi sig og sinni sínu starfi af ábyrgð. „Íbúarnir í Grindavík vilja ekki óvandaðan fréttaflutning. Þeir vilja bara fá sannleikann, en ekki einhverjar upphrópanir frá svokölluðum sérfræðingum sem eru að spá heimsenda. Við þurfum ekkert svoleiðis. Óvandaður fréttaflutningur angrar heimafólkið. Íslensk fréttamennska snýst sífellt meira um klikkin á netinu. Krassandi fyrirsagnir laða til sín klikk. Þeir sem skrifa svona fréttir gera sér augljóslega ekki grein fyrir áhrifunum á íbúana. Auðvitað á ekki að fela neitt en þá má heldur ekki kynda undir,“ segir Einar.

Óvissa og upplýsingar

Einar segir að viðbragðsaðilar á svæðinu leggi áherslu á að halda heimafólkinu upplýstu. Þeir héldu íbúafund fljótlega eftir að jarðskjálfahrinan hófst í maí í ár og þar var talað opinskátt um ástandið. Óvissan er alltaf slæm. Hann segir að heimamenn séu orðnir ansi vel menntaðir í jarðfræði og viti allt um kvikuhólf og jarðris svo eitt-hvað sé nefnt. Hann segir að þeir sem hafi

mestar áhyggjurnar sé barnafólkið sem vinnur utanbæjar. Það hefur áhyggjur af börnunum ef kæmi til skyndilegrar rýmingar á svæðinu. Það eru margir í þessum aðstæðum enda er Grindavík að verða nokkurs konar úthverfi Reykjavíkur eins og Selfoss, Hveragerði og Akranes. Hann bætir svo við að ástandið hafi ekki haft nein áhrif á fasteignaverð og fólk sé að kaupa sér eignir þarna og flytja til bæjarins, enda góður staður að vera á. Sumir búi við snjóflóðahættu, aðrir við aurskriðuhættu. Grindvíkingar búi á jarðskjálftasvæði en íbúarnir bera virðingu fyrir náttúrunni þar sem það getur komið gos á morgun, eftir hundrað ár eða tvö hundruð ár.

Áratuga reynsla

Einar byrjaði feril sinn í viðbragðsgeiranum hjá björgunarsveitinni á Dalvík 1989 og svo hjá slökkviliðinu á Dalvík frá árinu 1993 til 2000, nokkur ár í Hjálparsveit skáta í Kópavogi. Síðan gekk hann til liðs við slökkviliðið í Grindavík árið 2002 og byrjaði svo að starfa í sjúkraflutningum 2011. Í gosbyrjun var Einar í hlutastarfi sem sjúkraflutningamaður hjá Brunavörnum Suðurnesja. Sjúkraflutningar í Grindavík eru mannaðir í hlutastarfi, sex manns, tveir í einu, allan sólarhringinn viku í senn, þriðju hverja viku. Einar segist hafa sótt um starf slökkviliðsstjórans óhikandi í kjölfar gossins 2021. Hann hafi viljað hafa áhrif og þá sé eina leiðin að taka ábyrgð. Hann segist hafa haft sterkar skoðanir á hlutunum og tilbúinn að axla ábyrgð á óvissutímum eins og nú eru. Slökkvilið Grindavíkur samanstendur af tuttugu manna hópi. Menntunarstig hópsins er hátt og reynslan mikil, til dæmis eru síðustu fimm að klára sína menntun núna í vor. „Ég er sá eini sem er í fullu starfi á meðan aðrir mæta bara á æfingar og útköll. Þegar útkallið kemur mæta þeir í hús sem eru heima hverju sinni og sem hafa aðstæður til þess en í þessu felst engin bindingarskylda.“ „Þetta er ekki gallalaust fyrirkomulag og hlýtur að breytast í framtíðinni þar sem þjónustusvæðið okkar er stórt. Á svæðinu er að finna marga af helstu ferðamannastöðum landsins, stór fyrirtæki og mikilvæga innviði. Fjöldi íbúa á svæðinu eykst líka með hverju árinu. Í dag er þetta eins og nokkurs konar Kiwanisklúbbur og þangað sækja menn í skemmtilegan félagsskap og áskorun frekar en að þeir líti á þetta sem vinnu,” segir Einar. Hann segir að álagið á mannskapinn hafi ekki verið mikið yfir gostímann. En við vorum með mannaða vakt fyrstu vikurnar upp við gosstöðvar og eins mönnuðum við vettvangsstjórn. Öll árin frá því að hann kom til Grindavíkur virki eins rólegur nætursvefn miðað við það sem gerðist eftir 19. mars 2021. En hvað segja börnin hans fjögur um að pabbi þeirra sé í þessu ábyrgðarmikla starfi? Einar segir að þau séu stolt af því. En þegar fjölskyldan ræddi umsókn hans um starfið, kom í ljós að það sem krökkunum þótti verst var að pabbi þeirra kæmi ekki með þeim ef svo ólíklega vildi til að það kæmi til rýmingar á bænum.

NUTRILENK™